6.3.2013 | 15:08
Takk fyrir! þú sem ég þekkti ekki, en samt er þú hluti af mér.
Takk fyrir! þú sem ég þekkti ekki, en samt er þú hluti af mér.
Fyrir rúmum 13 mánuðum fékk ég nýtt hjarta að gjöf frá einstaklingi og / eða hans aðstandendum. Með þessari gjöf var mér og jafnvel fimm öðrum gefið líf, eftir líf annarar manneskju. Er hægt að gefa stærri gjöf en að gefa líf eftir sitt líf?
Þegar 12 mánuðir voru liðnir frá því að ég fékk nýja hjartað, fór ég í sýnatöku og kransæðarnar voru þræddar. Höfnun var 0 og kransæðarnar hreinar. Þrýstingur á milli hjarta og lungna var einnig góður. Það eina var að ég var með einhverjar innri bólgur sem drógu verulega úr allri orku hjá mér. Lyfjum var breytt, hætt og öðrum bætt við og núna um hádegi í dag var ég að fá þær niðurstöður úr blóðprufum gærdagsins að það sem ekki er komið í fullkomið lag, er næstum því komið í fullkomið lag. Semsagt frábærar fréttir, en ég var reyndar ekkert hissa á þessum niðurstöðum, því ég verð að fara all mörg ár aftur í tímann til að finna sambærilegan styrk og vellíðan. Ég þarf auðvitað að vinna upp slaka vöðva og lélegt þrek vegna æfingaskorts, en ég finn að nú hef ég styrkinn til að halda í það ferðalag, þökk sé þeim sem ég þekkti ekki en er samt hluti af mér nú
Framfarir við líffæraflutninga eru ótrúlega miklar og lífslíkur þeirra sem fá gefins líffæri aukast með hverjum degi, en því miður er enn mikill skortur á líffæragjöfum. Samkvæmt könnunum á Íslandi, er ekki skortur á líffæragjöfum einstaklinga, heldur aðstandenda, því kannanir sýna að um og yfir 90% Íslendinga vilja vera líffæragjafar, en aðeins rúm 40% aðstandenda samþykkja líffæragjöf þegar á reynir. Þetta er auðvitað ekkert skrítið. Það er ein hræðilegasta stund hvers og eins að standa frammi fyrir því að einhver náinn er í raun dáin og þurfa síðan að fara að taka skýrar og vel hugsaðar ákvarðanir ofan í sorgina. Þess vegna er það svo mikilvægt að allir segi sínum nánustu frá sínum óskum, hvort heldur sem fólk vill eða vill ekki gefa líffæri sín. Þá þurfa aðstendur ekki að reyna að átta sig á hvað hefði verið vilji hins látna, heldur að uppfylla óskir þeirra.
Sumir telja kannski að þeir geti ekki verið líffæragjafar vegna sjúkdóma sinna. Það getur verið rétt, en til gamans þá vil ég nefna ég þekki konuna sem fékk lokurnar úr mínu gamla hjarta sem var jú ónýtt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.